mánudagur, 28. júlí 2008

Undirbúningur

Undirbúningur er í fullum gangi og hefur staðið yfir frá því sl. haust. Veturinn var vel nýttur í alls kyns fjallamennsku, ss. ísklifur, fjallabrölt og skíðaferðir. Það er eitt og annað sem þarf að huga að...

Flug -frágengið
Leyfisgjöld -frágengið
Visa -í vinnslu
Bólusetningar -langt komnar
Tryggingar - í vinnslu
Yfirvigt -í vinnslu
Lyf og sjúkrabúnaður -í vinnslu
Klifurbúnaður, tjöld, svefnpokar ofl. -eitt og annað sem þarf að endurnýja -í vinnslu
Fatnaður -Cintamani ætlar að klæða okkur upp.

Skipulag ferðar

Við skipulagningu leiðangursins njótum við mikils styrks frá indverskum vini okkar og fjallamanni Raja. Hann hefur undanfarin ár rekið litla einkarekna ferðaskrifstofu sem selur fjalla og gönguferðir um indversku Himalaya fjöllin (http://www.adventuremania.com/). Það var snillingurinn Haukur Parelius sem kom Arnari og Berglind í kynni við Raja fyrir tæpl. 2 árum og fóru þau með honum í klifurleiðangur til Sikkim í N-Indlandi vorið 2007. Það var einmitt í þeirri ferð sem hugmyndin að Shivlingleiðangrinum kviknaði. Raja mun taka þátt í leiðangrinum og verður það frumraun hans á Mt. Shivling. Hann ætlar að sjá um að ráða burðarmenn, kokk og klifursherpa auk þess sem hann aðstoðar okkur við pappírsvinnu, sækja um leyfi o.fl. Það er frábært að hafa slíkan heimamann með í för sem kann á kerfið þarna úti og talar auk þess góða ensku ;)

Brottför

Brottför frá Íslandi verður 1.október 2008 og stefnum við að því að vera búin að klífa fjallið fyrir lok októbermánaðar. Það er aðeins gefið út eitt leyfi fyrir hvern mánuð sem þýðir að við verðum eini hópurinn á fjallinu í þessum mánuði. Þetta verður fyrsti íslenski hópurinn sem reynir við Mt. Shivling. Skráður leiðangursstjóri er Arnar Þór Emilsson.

Leiðin

Við hyggjumst klifra Vestur-hrygg Mt. Shivling. Leiðin hefur fengið alpa gráðuna D (difficult). Gangan að fjallinu hefst frá þorpinu Gangotri eftir pílagrímaslóðum fram hjá upptökum Ganges þar sem áin kemur undan Gangotri jöklinum. Leiðin liggur síðan yfir Gangotri jökulinn áleiðis að rótum Mt. Shivling. Grunnbúðir verða reistar í u.þ.b. 4400m hæð. Frá grunnbúðum er gengið upp stórgrýtta skriðu upp í 5100m hæð þar sem búðir 1 verða settar upp. Þaðan liggur leiðin eftir hryggnum í klettum, snjó og ís. Hluti leiðarinnar verður “fixaður” með línum. Búðir 2 og 3 verða reistar í 5600m og 6000m hæð. Rétt ofan við þriðju búðir er u.þ.b. 100m hátt ísfall sem verður klifið á toppadegi en þar verða línur einnig fixaðar. Eftir ísfallið tekur við brött snjóbrekka upp á topp og reiknum við með að nota hlaupandi tryggingar þar.

Um Shivling (6543m)

Nafnið er dregið af Guð sem er nefndur Shiva. Það var þó lengi vel kallað “Matterhorn peak” af evrópskum ferðamönnum vegna þess hversu lík fjöllin þóttu vera. Árið 1938 fór þýskur leiðangur að Shivling til að skoða möguleika á uppgöngu. Þeir klifruðu nokkra tinda í nágrenninu en lýstu því yfir að enga greiðfæra leið væri að finna upp fjallið vegna þess hve bratt það var. Shivling var fyrst klifið í júní 1974 eftir Vestur-hrygg fjallsins. Það er sú leið sem oftast hefur verið klifin. Eftir að fjallið var fyrst klifið hefur það þótt vinsælt og krefjandi verkefni meðal klifrara. Að minnsta kosti 10 aðrar leiðir hafa verið farnar upp fjallið. Þær teljast allar mjög erfiðar og hefur hver þeirra aðeins verið farin einu sinni til tvisvar.

Leiðangursmeðlimir







Arnar Þór Emilsson
Berglind Aðalsteinsdóttir
Eiríkur Geir Gunnarsson Ragnars
Gunnar Sverrir Gunnarsson Ragnars
Kári Erlingsson